Ásmundur Sveinsson og Þorvaldur Skúlason: Augans börn

Ásmundur Sveinsson og Þorvaldur Skúlason: Augans börn

Ásmundur Sveinsson og Þorvaldur Skúlason: Augans börn
29.10.2016 - 01.05.2017
 
Síðastliðin laugardag, 29.10.2016, opnaði í Ásmundarsafni sýningin Ásmundur Sveinsson og Þorvaldur Skúlason: Augans börn. Á þessari sýningu má sjá verk eftir þá Ásmund Sveinsson (1893 – 1982) og Þorvald Skúlason (1906 – 1984) sem voru í hópi þeirra listamanna sem stöðugt voru að tileinka sér ný viðhorf innan myndlistarinnar um miðja síðustu öld. Margir íslenskir myndlistarmenn sóttu nám erlendis þar sem þeir kynntust nýjum framsæknum hugmyndum og tóku að færast nær stefnum nútímalistar með tilheyrandi formtilraunum.
 
Sýningin er samstarf Listasafns Reykjavíkur og Listasafns Háskóla Íslands. 
 
Ásmundur og Þorvaldur lögðu báðir ríka áherslu á formrænt myndmál verka sinna og sóru sig þannig í ætt við móderníska hefð. Þeir gerðu sér góða grein fyrir sögulegu gildi efniviðarins og beindu sjónum sínum að efnislegum eigindum verkanna fremur en að líta á þau sem gáttir til ytra umhverfis. Þrátt fyrir að þeir veldu sér ólíka miðla voru Ásmundur og Þorvaldur að mörgu leyti hugmyndabræður og talaði Ásmundur um Þorvald sem sálufélaga sinn í myndlist. Enda þótt hægt sé að tímasetja nokkurn veginn hvenær Þorvaldur færði sig að öllu leyti yfir í óhlutbundið myndmál, þá eru mörkin engu að síður nokkuð óljós. Eins er í sjálfu sér ómögulegt að benda á það hvenær, Ásmundur sleit sig með öllu frá fígúrasjón í verkum sínum, hafi hann gert það á annað borð. Smám saman tók hið óhlutbundna myndmál völdin í verkum þeirra beggja. Myndirnar urðu sjálfstæð fyrirbæri og án vísana í hlutveruleikann. Ferill þeirra endurspeglar þannig móderníska framvindu sem stefndi frá viðteknum venjum og að markvissu samtali við samtímann.
 
Sjá má nánari upplýsingar um sýninguna á vef Listasafns Reykjavíkur.